Fróðleikur


Fríkirkjan í Hafnarfirði bólstruð í skýin.


Fríkirkjukórinn í febrúar 2001.


Fríkirkjan í Hafnarfirði og safnaðarheimilið
Linnetsstíg 6. Sími þar er 565 3430.Fríkirkjan í Hafnarfirði á sólríkum vordegi.
Fríkirkjukórinn 1928-30
E.r.fv. Kristmundur, Ingvar, Sigurjón,
Guðmundur, Guðjón, Einar úrsmiður,
dóttir Sigurjóns. 2.r.vf. Hulda dóttir
Ingvars, Jenný, Lilja dóttir Sigurjóns,
?, ?,Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður á sumardaginn fyrsta árið 1913. Ein aðalástæðan fyrir stofnun sjálfstæðs safnaðar var sú hugsjón að byggja kirkju í Hafnarfirði en þá hafði engin kirkja verið í Hafnarfirði um aldir og Hafnfirðingar átt kirkjusókn að Görðum sem þótti löng leið að fara. Hafist var handa við kirkjubyggingu um mitt sumar 1913 og þessi fyrsta kirkja Hafnfirðinga vígð í desember sama ár. Söfnuðurinn náði fljótt góðri fótfestu hér í bænum og safnaðarfólki fjölgaði hratt. Hlutfall fríkirkjufólks af íbúafjölda hefur hvergi verið hærra á landinu en hér í Hafnarfirði. Síðustu árin hefur orðið veruleg fjölgun safnaðarfólks. Árið 1982 voru um 1.800 manns í söfnuðinum, 1. des. árið 2007 var fjöldinn kominn í  5.024 og árið 2011 eru safnaðarmeðlimir um 6.100. Fríkirkjusöfnuðurinn starfar á nákvæmlega sama kenningargrunni og Þjóðkirkjan og er evangelisk-lútherskur söfnuður. Söfnuðurinn er hins vegar ekki háður landfræðilegri sóknaskipan eins og gildir um þjóðkirkjusöfnuði.

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði
Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði er evangelísk- lúterskur söfnuður og starfar á sama kenningargrundvelli og Þjóðkirkja Íslands. Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður á Sumardaginn fyrsta árið 1913 og var aðalmarkmiðið með stofnun hans að reisa kirkju í Hafnarfirði sem þá var vaxandi kaupstaður en þá hafði engin kirkja verið í Hafnarfirði um aldir. Fram til þess tíma höfðu hafnfirðingar átt kirkjusókn að Görðum á Álftanesi og þótti mörgum það löng leið að sækja þangað kirkju.

Sumarið 1913 var hafist handa við að reisa þessa fyrstu kirkju Hafnfirðinga og sóttist verkið svo vel að kirkjan var vígð 14. desember sama ár. Fyrsti prestur kirkjunnar var sr. Ólafur Ólafsson sem jafnframt þjónaði Fríkirkjunni í Reykjavík og fyrsti formaður safnaðarstjórnar var Jóhannes Reykdal verksmiðjueigandi hér í Hafnarfirði. Davíð Kristjánsson trésmíðameistari teiknaði kirkjuna og fyrirtækið Dvergur sá um framkvæmdir.

Árið 1931 fóru fram talsverðar endurbætur á kirkjunni. Turn kirkjunnar var stækkaður og kórinn byggður við og fékk núverandi mynd. Teikningar að kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trésmíðameistari. Árið 1982 voru smíðaðar fjórar viðbyggingar við kirkjuna, skrúðhús og anddyri við bakdyr og biðherbergi og snyrting við forkirkju. Teikningar gerði Óli G. H. Þórðarson arkitekt.

Umfangsmestu endurbæturnar á kirkjunni fóru svo fram sumarið og haustið 1998. Þá var kirkjan öll endurnýjuð að innan. Kirkjan var þá að nýju klædd með panel og skipt var um gólfefni svo fátt eitt sé nefnt. Umsjón með breytingunum höfðu Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og verkfræðistofan Línuhönnun. Verktakar voru fyrirtækið Gamlhús. Kirkjan var endurvígð af biskup Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni, 13. desember 1998.

Myndir og skreytingar
Altarismyndin er máluð af Ágústi Lárussyni en umgjörð hennar, þrískiptir rammar eru hannaðir af  sr. Jóni Auðuns sem lengi þjónaði kirkjunni. Myndir á predikunarstóli og skírnarfonti voru málaðar af Hönnu Davíðsson upp úr 1930. Fyrir ofan söngpall má sjá fallega eftirmynd af málverki Rafaels, Madonna el cedia ( María með barnið). Árið 1974 var sett í kórgluggana steint gler sem keypt var í Þýskalandi.

Fjölgun safnaðarfólks
Það voru um 100 manns sem stofnuðu Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Söfnuðurinn náði fljótt góðri fótfestu hér í bænum og safnaðarfólki fjölgaði hratt. Hlutfall fríkirkjufólks af íbúafjölda hefur hvergi verið hærra á landinu en hér í Hafnarfirði. Síðustu árin hefur orðið veruleg fjölgun safnaðarfólks. Árið 1982 voru um 1800 manns í söfnuðinum en árið 2007 var fjöldinn kominn í 5.024. Árið 2011 eru safnaðarmeðlimir um 6.100.
 
Sérstaða Fríkirkjunnar
Eins og fram kemur hér í upphafsorðum er Fríkirkjusöfnuðurinn lúterskur söfnuður og starfar því á sama grunni og Þjóðkirkja Íslands. Biskup Íslands vígir t.d. presta til safnaðarins. Fríkirkjuhugsjónin á Íslandi beindist aldrei gegn kennisetningum Þjóðkirkjunnar heldur gegn sambandi ríkis og kirkju. Hin miklu afskipti ríkisvaldsins af innri málefnum kirkjunnar féllu mörgum illa. Það er ein af meginástæðum þess að fríkirkjusöfnuðirnir voru stofnaðir.

Þar sem Fríkirkjan er sjálfstætt trúfélag þá telur ríkisvaldið sér ekki skylt að styðja fríkirkjusöfnuðinn með sama hætti og Þjóðkirkjuna. Prestur safnaðarins er því ekki ríkisstarfsmaður heldur launaður af söfnuðinum. Ríkisvaldið innheimtir engu að síður sóknargjöld sem eru hin sömu og fólk greiðir til Þjóðkirkjunnar.

Safnaðarheimili
Fríkirkjusöfnuðurinn flutti í núverandi safnaðarheimili við Linnetsstíg árið 1997. Þar fer fram  fjölbreytt safnaðarstarf flesta daga vikunnar yfir vetrartíman. Þar hafa prestar safnaðarins viðtalsaðstöðu. Helstu þættir safnaðarstarfsins eru:

Guðsþjónustur – Sunnudagaskóli – 12 spora starf –  Kirkjukór – Kvenfélag – Fræðslustarf.

Prestar safnaðarins frá upphafi
Sr. Ólafur Ólafsson 1913-1930. 
Sr. Jón Auðuns 1930-1945.  
Sr. Kristinn Stefánsson 1945-1966. 
Sr. Bragi  Benediktsson 1966-1971. 
Sr. Guðmundur Óskar Ólafsson 1971-1974. 
Sr. Magnús Guðjónsson 1974-1978. 
Sr. Bernharður Guðmundsson 1978-1984. 
Ásamt sr. Bernharði þjónuðu sr. Bragi Skúlason og sr. Jón Helgi Þórarinsson í eitt ár hvor.  
Sr. Einar Eyjólfsson hefur þjónað frá árinu 1984 
og ásamt honum sr. Sigríður Kristín Helgadóttir frá haustdögum 2000.

Djákni: Sigríður Valdimarsdóttir

Upplýsingar um annað starfsfólk er að finna undir "Kirkjan - starfsfólk"

Skráning í söfnuðinn
Það er ákaflega brýnt að þeir sem kjósa að þiggja sína kirkjuþjónustu í Fríkirkjunni séu skráðir í söfnuðinn. Þetta kemur til af því að ríkisvaldið innheimtir sóknargjöld fyrir sérhvern einstakling og greiðir til þeirrar kirkju sem viðkomandi er skráður í. Sóknargjöldin eru einu föstu tekjurnar sem Fríkirkjan hefur til þess að standa straum af viðhaldi kirkjunnar og safnaðarstarfi. Skráning fer fram á skrifstofu safnaðarpresta eða hjá Hagstofunni.

Kvenfélag Fríkirkjunnar
Um áratugaskeið hefur Kvenfélag Fríkirkjunnar með markvissum hætti hlúð að öllu starfi kirkjunnar. Kvenfélagskonur áttu frumkvæði að því að hefja barnastarf við kirkjuna auk þess sem félagið hefur fært kirkjunni veglegar gjafir og borið margvíslegan kostnað af starfi og viðhaldi kirkjunnar.

Kirkjukór
Framlag kirkjukórsins til helgihalds kirkjunnar er ómetanlegt en kórinn æfir einu sinni í viku og leiðir söng við guðsþjónustur annan hvern sunnudag. Æfingar kirkjukórsins eru á miðvikudögum kl.18:30.