Það voru 130 fermingarbörn sem tóku þátt í fermingarferðum Fríkirkjunnar þetta haustið sem farnar voru austur að Úlfljótsvatni síðustu helgina í ágúst og þá fyrstu í september.
Ferðirnar tókust mjög vel enda frábært ungt fólk á ferðinni. Aðstaðan og umgjörðin á Úlfljótsvatni hjálpaði einnig til við að setja tóninn en staðurinn skartaði sínu allra fegursta þessa daga enda fádæma gott veður í boði formanns safnaðarstjórnar.
Gott upphaf á vetrarstarfinu
Þessar ferðir skipa orðið fastan sess við upphaf fermingarundirbúningsins og eru góð og árangursrík leið fyrir prestana okkar og verðandi fermingarbörn til að kynnast og njóta samveru í fallegu umhverfi um leið og tekist er á við fjölbreytt viðfangsefni að skátasið.
Þröngt mega sáttir sitja
Hópurinn fer stækkandi með ári hverju og að þessu sinni voru það 52 börn sem tóku þátt fyrri helgina og 68 börn helgina þar á eftir. Auk þeirra eru það Sr. Sigríður og Sr. Einar og góður hópur fullorðinna og yngri sjálfboðaliða sem leggja hönd á plóg í þessum ferðum og því er oft margt um manninn í matsal og gistiaðstöðunni.
Fjölbreytt dagskrá
Á þeim liðlega sólarhring sem ferðin tekur er tekist á við fjölbreytta dagskrá sem inniheldur gönguferð, vatnasafarí, kvöldvöku, varðeld og póstleik með ýmsum verkefnum svo nokkur dæmi séu tekin.
Stjórnendur dagskrár voru ánægðir með hvað hver og einn einasti þátttakandi var reiðubúinn og viljugur til að taka þátt í því sem í boði var.
Matur er mannsins megin
Ekki má gleyma að nefna kræsingarnar sem eru bornar á borð í matsalnum en sá matseðill var eins og venjulega á ábyrgð Eyjólfs okkar. Dýrindis „Lasagna“ með hvítlauksbrauði í kvöldmat, skúffukaka, mjólk og melónur í kvöldkaffi, sneisafullt morgunverðarhlaðborð að hætti „Hótel Rangá“ og svo girnilegur grjónagrautur, brauð og álegg fyrir brottför.
Vel heppnaðar ferðir
Þegar allir höfðu fengið magafylli og meira til af hádegisverði var gengið frá farangri og haldið um borð í rútuna sem flutti ferðalangana að Ljósafossstöð þar sem skoðuð var ný sýning Landsvirkjunnar. Þar er orkan yrkisefnið og gestir geta spreytt sig á að leysa eigin orku úr læðingi með því að nota eigin þyngd, styrk og afl.
Þakklæti til allra þátttakenda fyrir yndislega samveru!
:: Sýnishorn úr myndasafni ferðanna