Boðað er til aðalsafnaðarfundar Fríkirkjusafnaðarins 2. júní nk. í Safnðarheimilinu kl. 20. Að þessu sinni er stefnt að afgreiðslu á heildarendurskoðun laga fyrir Fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði.

Drögin fara hér á eftir og líka má finna hlekk á gildandi lög, en þau eru komin til ára sinna.

https://drive.google.com/file/d/1PZ7YYxqVmOsgkUaMaZz06KNQb79whqfW/view

Ný lög fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði (drög – tillögur að bretingum lögð fram á aðalsafnaðarfundi 2. júní 2021

1. kafli Nafn trúfélagsins og  trúarskoðun

1. gr. Fullt nafn trúfélagsins er Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði. Lögheimili og varnarþing safnaðarins er í Hafnarfirði.

2. gr. Fríkirkjan í Hafnarfirði er kristinn söfnuður fólks og evangelísk – lúterskt trúfélag. Fríkirkjan í Hafnarfirði leitast við að vera vettvangur fyrir lifandi og skapandi trúarlíf sem höfðar til samtíðar sinnar á hverjum tíma.  Fríkirkjan í Hafnarfirði vill opna dyr sínar fyrir öllu því sem má verða má til eflingar heilbrigðu og öflugu kristilegu trúarlífi og safnaðarstarfi og hafnar hvers kyns fordómum í kristilegu starfi.  Fríkirkjan í Hafnarfirði hefur fullt forræði í eigin málum gagnvart stofnunum og stjónvöldum.

3. gr. Forstöðumaður Fríkirkjusafnaðarins er prestur við söfnuðinn eða formaður safnaðarstjórnar eða framkvæmdastjóri í samræmi við skyldur og ábyrgð forstöðumanns eins og þær eru  skilgreindar í lögum um trú- og lífskoðunarfélög hverju sinni.

2. Kafli Safnaðarfélagar

4. gr. Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði er opinn söfnuður og getur hver og einn orðið félagi í söfnuðinum. Þeir sem vilja ganga í söfnuðinn eða ganga úr honum skulu tilkynna það til þjóðskrár.

5. gr. Um greiðslu safnaðargjalda og innheimtu þeirra fer samkvæmt gildandi lögum um sóknargjöld eða nánari ákvörðun aðalsafnaðarfundar.

3. Kafli Safnaðarstjórn, aðrir kjörnir fulltrúar og starfsmenn

6. gr. Stjórn safnaðarins er í höndum sjö manna sem kosnir eru á aðalsafnaðarfundi til þriggja ára í senn, nema formanns sem kosinn skal á hverjum aðalfundi til eins árs. Varastjórn skal skipuð þremur mönnum sem kosnir eru til eins árs. Í safnaðarstjórn eiga einnig sæti með málfrelsi og fullan atkvæðisrétt fulltrúar Kvenfélags Fríkirkjunnar, Bræðrafélags Fríkirkjunnar og Fríkirkjukórsins

7. gr. Safnaðarstjórn annast og er ábyrg fyrir fjárhagsmálum safnaðarins. Hún hefur jafnframt full umráð yfir öllum eignum safnaðarins, í samræmi við ákvörðun aðalsafnaðarfunda. Ráðstöfun eigna, s.s. kaup, sölu eða nýsmíði fasteigna, svo og lántökur eða veðsetningar, annast safnaðarstjórn að fenginni heimild aðalsafnaðarfundar.  

8. gr. Safnaðarstjórn heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar með dagskrá til safnaðarstjórnarfunda og stýrir þeim.  Þeir eru lögmætir ef meirihluti mætir. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála. Óski tveir eða fleiri safnaðaðarstjórnarmenn eftir því að fundur verði haldinn kallar formaður saman safnaðarstjórnarfund. Á fyrsta fundi safnaðarstjórnar eftir aðalfund skal kjörinn varaformaður, ritari og gjaldkeri úr hópi safnaðarstjórnar.  Safnaðarstjórn heldur fundargerðir sem ritari varðveitir á milli aðalsafnaðarfunda.

9. gr. Safnaðarstjórn getur skipað framkvæmdastjórn úr sínum röðum og ráðið framkvæmdastjóra yfir fjárreiður, starfsmannahald og stjórnsýslu safnaðarins.

10. gr. Safnaðarstjórn ræður starfsfólk safnaðarins og annast samninga um starfskjör. 

4. Kafli Aðalsafnaðarfundur

11. gr. Aðalsafnaðarfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði. Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir lok maímánaðar ár hvert, nema veigamikil rök mæli með öðru. Skal boðað til hans með auglýsingu með a.m.k. 7 daga fyrirvara.

12. gr. Aðalsafnaðarfundur er löglegur ef löglega er boðað til hans og a.m.k. 20 atkvæðisbærir safnaðarmeðlimir sækja hann. Sé aðalsafnaðarfundur ekki löglegur skal safnaðarstjórn boða til fundar á ný innan eins mánaðar.

13. gr. Atkvæðisrétt á aðalsafnaðarfundi hefur hver skráður félagi í Fríkirkjusöfnuðinum sem er 16 ára eða eldri.

14. gr. Í fundarboði aðalsafnaðarfundar er auglýst dagskrá þar sem safnaðarstjórn flytur skýrslu og gjaldkeri leggur fram ársreikninga til samþykktar og skulu þeir vera áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum.  Eins fer fram kjör safnaðarstjórnar sbr. 6.gr. og kosnir tveir skoðunarmenn ársreikninga til eins árs í senn.  Starfa þeir sjálfstætt og geta hvenær sem er yfirfarið bókhald og fjárreiður safnaðarins. 

15. gr. Á aðalsafnaðarfundi eru afgreiddar lagabreytingar sbr. 21. gr. og önnur mál er varðar Fríkirkjusöfnuðinn.  Aðalsafnaðarfundi stýrir fundarstjóri sem kjörinn er í upphafi fundar.

16. gr. Aukasafnaðarfund skal halda ef safnaðarstjórn telur þess þörf eða ef minnst 50 atkvæðisbærir safnaðarmeðlimir óska þess skriflega. Skal þá tekið fram hvers vegna óskað er fundar. Aukasafnaðarfund skal boða með sama fyrirvara og á sama hátt og aðalsafnaðarfund og gilda sömu ákvæði um lögmæti slíks fundar.  Í fundarboði skal tilgreina dagskrá og ástæður fundarins.

5. Kafli Prestar og annað starfsfólk safnaðarins

17. gr. Prestar safnaðarins hafa lokið embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða sambærilegri prófgráðu og hlotið embættisgengi . 

18. gr. Prestar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði eru þjónar safnaðarins og trúarlegir leiðtogar kirkjunnar í samræmi við evangelísk lútherska trúarhefð.

19. gr.  Safnaðarstjórn annast ráðningu presta sbr. 10. gr.

20.gr.  Við Fríkirkjuna í Hafnarfirði starfar tónlistarstjóri sem uppfyllir kröfur safnaðarstjórnar.  Hann er þjónn safnaðarins og hefur umsjón með flutningi á trúarlegri tónlist í kirkjunni og á vegum safnaðarins.  Prestar og tónlistarstjóri skipuleggja í sameiningu áherslur í tónlistarflutningi.

21. gr. Safnaðarstjórn gerir starfssamning við presta Fríkirkjusafnaðarins, tónlistarstjóra og aðra fasta starfsmenn með gagnkvæmum 3 mánaða uppsagnarfresti. Í samningi skal m.a. kveða á um réttindi og skyldur, launakjör og starfshlutfall.  

6.Kafli Lagabreytingar,gildistaka og slit.

22. gr. Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalsafnaðarfundi og skal þess þá sérstaklega geta í fundarboði að ræða eigi breytingar á lögum safnaðarins. Í texta fundarboðsins skal tekið fram hvar lagabreytingartillögurnar liggja frammi til kynningar og skoðunar fyrir fundinn. Til þess að gera breytingar á lögum þessum þarf samþykki 2/3 hluta fundarmanna.

23. gr. Fríkirkjusöfnuðinum verður ekki slitið nema með samþykki ¾ hluta fundarmanna. Fyrst skal boða aðalsafnaðarfund þar sem gerð er tillaga um slit og meðferð eigna.  Á framhaldi hans skal boðað til sérstaks slitafundar eigi skemur en fjórum vikum síðar, en til hans er boðað á sama hátt og aðalsafnaðarfund.

24. gr. Lög þessi öðlast gildi um leið og þau eru samþykkt.