Fríkirkjan í Hafnarfirði var vígð 14. desember árið 1913 og fagnar því 110 ára vígsluafmæli.
Á þessum tímamótum getum við glaðst yfir því að söfnuðurinn vex og dafnar og telur nú um 7.800 manns. Við erum stolt af öflugu starfi sem blómstrar sem aldrei fyrr.
Við sem stýrum starfi kirkjunnar í dag erum þakklát fyrir þann meðbyr sem við finnum og setjum okkur það markmið á 110 ára afmælinu að stuðla að því að Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði láti aldrei deigan síga í baráttunni fyrir fallegu mannlífi, réttlæti og velferð. Í því felst að við megum aldrei líta undan þegar óréttlæti og hvers kyns meinsemdir eru annars vegar.
Boðskapur Jesú er einhver róttækasta mannréttinda krafa sem hefur komið fram. Allt sem hann kenndi og boðaði beindist að því að rétta hag hinna hrjáðu og smáðu, þeirra lítilsvirtu og niðurlægðu. Hann tók málstað fátækrar ekkju og hórsekrar konu. Hann benti á fordæmi miskunnsama samverjans. Hann sýndi okkur að kærleikurinn og umhyggjan eru eini mælikvarðinn sem við eigum að nota í mannlegum samskiptum.
Á þessum tímamótum í sögu Fríkirkjunnar í Hafnarfirði hugsum við til frumherjanna, þeirra sem stofnuðu þennan söfnuð á sínum tíma og þökkum þeim sem og öllum sem síðan hafa borið starfið uppi. Þrátt fyrir 110 árin er þetta ungur söfnuður, hlutfall barna og ungmenna hærra en í flestum öðrum söfnuðum. Það segir mikið um stöðuna að í vetur taka 200 unglingar þátt í fermingarstarfi kirkjunnar og í sunnudagaskólanum er þétt setinn bekkurinn alla sunnudagsmorgna.
Við horfum því björtum augum til framtíðar um leið og við vonumst til að sem flestir megi njóta blessunar af því starfi sem hér fer fram.
Prestar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði.
Sr. Einar Eyjólfsson
Sr. Margrét Lilja Vilmundardóttir