Elsku vinir!

Það berast skemmtilegar fréttir úr Fríkirkjunni en á komandi hausti bætist í starfsmannahópinn okkar góða þegar sr. Inga Harðardóttir gengur til liðs við okkur sem prestur kirkjunnar.

Inga er ekki ókunnug Fríkirkjunni en hún starfaði hjá okkur um nokkurra ára skeið í fjölbreyttu starfi kirkjunnar samhliða námi í guðfræði. Síðustu ár hefur hún verið prestur íslenska safnaðarins í Noregi þar sem hún hefur verið búsett ásamt fjölskyldu sinni.

Við þetta tilefni ætlar sr. Einar að minnka starfshlutfallið sitt í hálft starf eftir rúm 40 ár í kirkjunni okkar fallegu.

Safnaðarfólki Fríkirkjunnar hefur fjölgað verulega á síðustu árum og telur nú nærri 8000 manns. Kirkjan þjónar þó mun stærri hópi en það og til gamans má nefna að fermingarbörn kirkjunnar þetta vorið eru rúmlega 250.

Það er að mörgu að huga í skemmtilegum og virkum söfnuði, það eru spennandi og bjartir tímar framundan og við hlökkum mikið til að halda áfram því mikilvæga starfi sem kirkjan gegnir í samfélaginu okkar.

Hlýjar kveðjur frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði.